154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:56]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Ef ég byrja á seinni hlutanum þá kom fram hér í ræðu hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra í gær að þetta samtal milli ráðuneytis og sveitarfélaga væri í góðum gangi og (Gripið fram í.) ég veit að unnið er að því af fullum krafti að leysa úr þessum vanda. Hvað hitt varðar þá erum við hv. þingmaður sammála um það að við vildum gera betur í loftslagsmálum. En ég ætla þó að benda á nokkur atriði af því að hér er talað eins og nákvæmlega alltaf er gert, að það sé ekkert verið að gera, að það sé allt í afturför, engin verkefni, enginn sjáanlegur árangur né plön. Það er þó ekki svo. Við erum að ná árangri jafnt og þétt og það að nota rök eins og að benda á það að hér hafi aukist útblástur á milli ára — auðvitað var það fyrirséð eftir heimsfaraldur þar sem bara margfalt færri ökutæki voru á ferðinni, þannig að þetta er einhvers konar grín að koma fram með svona tölur. (Gripið fram í.) Við skulum ræða borgarlínu, (Gripið fram í.) við skulum ræða … Mig langar að biðja forseta að leyfa mér að hafa orðið í þessari pontu. Ég nefni borgarlínu, ég nefni almenningssamgöngur. Við höfum setið góða fundi hér á Alþingi með fjölmörgum aðilum sem vinna að því að ná árangri í þessari baráttu með mörgum úrræðum. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér öll þau málefni sem eru í loftslagsvinnu innan ráðuneytanna því þar er mjög margt í gangi og við sjáum árangur. Ég segi aftur: Ég er sammála hv. þingmanni sem Vinstri græn, sem áhugamanneskja um þessa málaflokka, (Forseti hringir.) ég myndi svo sannarlega vilja sjá okkur gera þetta hraðar en við erum á réttri leið og við erum að standa okkur vel.